Innlent

Björn telur sig vanhæfan

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur sig vanhæfan til að skipa í embætti hæstaréttardómara sem nú er laust vegna þeirra eftirmála sem urðu þegar hann skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson dómara við réttinn í ágúst í fyrra. Það kemur í hlut Geirs H. Haarde fjármálaráðherra að taka ákvörðun um hver hlýtur embættið. Í bréfi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra gerir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra grein fyrir ástæðum þess að hann telji sig vanhæfan. Þar segir að meðal umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara nú sé Hjördís Hákonardóttir dómstjóri sem einnig var meðal umsækjenda um það dómaraembætti sem Ólafi Berki Þorvaldssyni var veitt í ágúst á síðasta ári. Hjördís kærði þá skipan til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðustöðu að skipan menntamálaráherra hefði brotið gegn jafnréttislögum. Því var beint til dómsmálaráðherra að finna viðunandi lausn á málinu. Dómsmálaráðherra segir viðræður í því skyni hafa farið fram en sé ekki lokið. Meðan svo sé telji hann að aðrir umsækjendur megi með réttu draga í efa óhlutdrægni hans við val á umsækjendum í það embætti sem nú er laust. Að tillögu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra hefur forseti Íslands því sett Geir H. Haarde fjármálaráðherra til að taka ákvörðun um það hver skipaður verður í embætti hæstaréttardómara, að fenginni umsögn hæstaréttar um umsækjendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×