Innlent

Framsóknarkonur fjölga sér

Una María Óskarsdóttir stóð í gær upp úr stóli aðstoðarmanns umhverfisráðherra og sest undir stýri á tveggja ára gömlum Toyota Land Cruiser jeppa. Förinni er heitið hringinn í kringum landið og er ætlunin að fá nýjar konur til liðs við flokkinn og efla þær sem fyrir eru. Landssamband framsóknarkvenna stendur fyrir ferðinni en á fundi sambandsins í ágústlok var samþykkt að hvetja konur og aðra jafnréttissinna innan flokksins til að stuðla að fjölgun kvenna í öllu flokksstarfi. Var fundurinn haldinn þegar ljóst var að Siv Friðleifsdóttir viki úr ríkisstjórn og framsóknarkonum í ríkisstjórn fækkaði um helming. Una María segir að nákvæm ferðaáætlun liggi ekki fyrir, verið sé að yfirfara bílinn góða og ákveða undir hvaða slagorði skuli farið. Á heimasíðu framsóknarkvenna, lfk.is, er auglýst eftir slagorði en þegar hafa nokkur borist. Má þar nefna: Framsóknarkonur - til áhrifa! Konur - fram til áhrifa! Brjótumst til valda! Áfram framsóknarstelpur! Áfram framsóknarkonur! Konur - framsóknar - til áhrifa! Framsóknarkonur - við erum flokkurinn! og Framsókn - konur til áhrifa! Fyrir síðustu sveitastjórnakosningar stóð landssambandið fyrir fundarferð til að fjölga konum í sveitastjórnum. Var þá farið um landið undir kjörorðinu; Kveikjum í konum. Una María reiknaði með að lagt yrði í hann fljótlega eftir helgi og vonast hún eftir góðum árangri herferðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×