Innlent

Foreldrar aðstoða í Ísaksskóla

Vökul augu verkfallsvarða fylgdust grannt með foreldrum sem fylltu upp í kennslustundir barna í Ísaksskóla í morgun. Skólinn er meðal þeirra einkaskóla sem starfa í verkfallinu en það gerist með hjálp foreldra. Sú sérkennilega staða er uppi í Ísaksskóla að sex kennarar af sextán eru í verkfalli. Það myndast því göt í stundarskrá barnanna. Til að halda skólanum gangandi hafa foreldraráð í hverjum bekk komið á því kerfi að þrír foreldrar taka að sér hverju sinni að fylla upp í götin. Farið er með börnin í göngutúr út fyrir skólalóðina og í leiki á Miklatúni. Verkfallsverðir Kennarasambandsins eru hins vegar mættir til að kanna hvað hér er á seyði og hvort foreldrar séu hugsanlega að ganga inn í störf kennara. Samskiptin reynast vinsamleg og skólastjóri býður verkfallsvörðum upp á kaffi og kökur, enda gera þeir enga athugasemd við þátt foreldranna. Þóra Kjeld, verkfallsvörður sem var í Ísaksskóla í dag, segir foreldri sem sinni barninu sínu ekki vera verkfallsbrot í sínum huga. Myndin er frá skólaslitum í Ísaksskóla í vor.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×