Innlent

Tugur beiðna um undanþágur

Um það bil tugur beiðna um undanþágur vegna verkfallsins hafa borist kennurum en bið er á því að umsóknirnar verði teknar fyrir. Verkfallið gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir börn sem eiga við geðsjúkdóma að stríða. Það eru dæmi þess að undanþágur frá kennaraverkfalli hafi verið veittar, til dæmis var einhverfum börnum kennt í kennaraverkfallinu árið 1995. Flestar beiðnirnar sem nú hafa borist eru um kennslu fyrir andlega og líkamlega fötluð börn. Meðal þeirra sem óskað hafa eftir undanþágu er Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Þar getur stöðvun á námi haft alvarlegar afleiðingar. Valgerður Jensen, hjúkrunarfræðingur á BUGL, segir krakka sem eiga í erfiðleikum í skóla leggjast þar inn og hafa þeir oft ekki mætt í skólann í langan tíma vegna kvíða, þunglyndis og fleira. Krakkarnir hafi því lent á eftir í námi og þurfi þ.a.l. nauðsynlega á kennslu að halda til að vinna upp tapaðan tíma.  Oft er skólagangan stærsti hluti vandamáls þessara barna. En vandamálin leysast ekki með undanþágu ef verkfallið dregst á langinn því börnin eiga að fara aftur í eigin skóla þegar meðferð lýkur. Meðferðin stöðvast hins vegar um leið og almennt skólastarf stöðvast vegna verkfalls. Biðlistar inn á deildina fara heldur ekki varhluta af verkfallinu. Ekki hefur tekist að afgreiða beiðnirnar þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga skipaði ekki fulltrúa í nefndina fyrr en í dag. Ekki hefur verið ákveðið hvenær nefndin tekur til starfa.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×