Innlent

Vilja fund með sveitarstjórum

Kennarar óskuðu í gær eftir fundi á morgun með sveitarstjórum nokkurra stærstu sveitarfélaga landsins til að ræða stöðuna í verkfallinu og skýra sjónarmið sín. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði að margir sveitarstjórar hefðu synjað beiðni kennara í gær og ætli ekki að mæta til fundarins. Hins vegar hefði enginn boðað komu sína. Eiríkur sagði sveitarfélögin verða að koma til móts við samninganefnd kennara, öðruvísi leysist deilan ekki. Hann segir að kjaranefnd sveitarfélaganna hafi ekki lagt fram nýtt tilboð til kennara og því leiti kennarar þessarar leiðar til að nálgast lausn. Samninganefnd kennara kom ekki saman til formlegs fundar í gær. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, segist ekki hafa neitt á móti því að kennarar ræði beint við sveitarstjórnarmenn enda sé málfrelsi í landinu. Hann segist hafa hitt sveitarstjórnarmenn af öllu landinu og þeir beri fullt traust til samninganefndarinnar. Spurður um líkurnar á því að samningar náist á fundi deilenda hjá ríkissáttasemjara á fimmtudag segir Birgir að kennarar hafi sett fram ófrávíkjanlegar kröfur. ,,Við höfum ekki fallist á þær fram til þessa og ég geri ekki ráð fyrir því að við föllumst á þær fyrir fimmtudag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×