Innlent

Þingmálin í vetur

Skattalækkanir og niðurskurður verða meðal helstu þingmála á 31. löggjafarþing Íslendinga sem verður sett í dag. Stjórnarandstaðan ætlar líka að ræða um kennararverkfall, Írak, Símann og embættisveitingar. Þingmenn eru almennt sammála um að samkvæmt venju taki ríkisfjármálin mestan tíma þingsins í byrjun. "Fjárlagafrumvarpið og skattalækkanir verða í brennidepli í byrjun og fram að áramótum" segir Árni Matthiesen, sjávarútvegsráðherra sem segist þó ekki sjá mikil átök um þau mál. Því er Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins ósammála. "Ríkisstjórnin hefur tekið hátekjuhópana fram yfir aðra, við villjum styðja þá sem lakast hafa kjörin." Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir að efnahagsmál verði fyrirferðarmikil ekki síst vegna skattalækkana. "Það er mikilvægt að halda útgjöldum í skefjum til að viðhalda stöðugleika og halda verðbólgu í skefjum." Össur Skarphéðinsson segir að stjórnarandstaðan hafi aðrar áherslur og vilji að velferðarkerfinu verði hlíft við niðurskurði. Aðrir stjórnarandstæðingar taka í svipaðan streng. Á meðan flestir tala um skattalækkanir og einkavæðingu vilija vinstri grænir fresta sölu Símans til 2008 og hækka fjármagnstekjuskatt. "Það verður tekist á um þetta" segir Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður. Framsóknarmenn segja að breytingar á húsnæðislánum hafi nú þegar skilað sér í vaxtalækkunum bankanna. "Það er hálfleikur í þessu máli" segir Hjálmar Árnason og segir að frumvarp um 90% húsnæðislán sem félagsmálaráðherra leggur fram í þingbyrjun verði eitt af stóru málum vetrarins. Stjórnarandstæðingar segjast ætla að taka Íraksmálið upp upp og Össur Skarphéðinsson segir að "pólitískar embættisveitingar" og kennaraverkfallið verði mál sem tekin verði upp í þingbyrjun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×