Innlent

Skorið verður niður á LSH

Framkvæmdastjórn Landspítala háskólasjúkarhúss kemur saman í dag til að fara yfir sparnaðarkröfur á hendur spítalanum og setjast að nýju yfir tillögur um hvernig væntanlegum niðurskurði verður háttað. "Miðað við útkomuspá ársins í ár lítur út fyrir að við munum þurfa að draga saman á næsta ári um 6-700 milljónir króna," sagði Anna Lilja. Hún sagði að spítalanum hefði upphaflega verið gert að spara um 1.400 milljónir króna á þessu ári og því næsta. Sú krafa hefði verið minnkuð um tæpar 500 milljónir á næsta ári. Af sparnaðarkröfunni í ár hefði tekist að spara tæplega tvo þriðju hluta. Eftir stæðu 300-350 milljónir í halla á árinu. Í fjárlögum væri gert ráð fyrir ámóta upphæð í niðurskurði á næsta ári, þannig að samtals væri krafan upp á 6-700 milljónir. "Við báðum um að sparnaðarkrafan sem gerð var í ár yrði látin duga," sagði Anna Lilja. "Jafnframt að við fengjum rétta uppfærslu á s-merktu lyfin, sem hefði þá verið um 10 prósent í staðinn fyrir 3,5 eins og gert er ráð fyrir í fjárlögum. Auðvitað erum við þakklát fyrir að sparnaðarkrafan er minnkuð en hún er erfið samt sem áður. Við töldum að við myndum geta haldið nokkurn veginn svipaðri þjónustu ef við hefðum ekki þurft að lenda í niðurskurði á næsta ári umfram þessar 300-350 milljónir, sem standa út af borðinu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×