Innlent

Kennarar í veikindaleyfi án launa

Kennarar í veikindaleyfi falla af launaskrá og fá ekki greidd laun í verkfalli kennara. Eins fá atvinnulausir kennarar ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan kennarar eru í verkfalli. Kennurunum er öllum gert að sækja verkfallsbætur í Vinnudeilusjóð Kennarasambands Íslands. Árni Heimir Jónsson, formaður stjórnar Vinnudeilusjóðs KÍ segir erfitt fyrir kennara í veikindaleyfi að þurfa að bæta fjárhagsáhyggjum við erfiðleika sína. "Það getur verið mjög harkalegt fyrir kennara í veikindaleyfi að missa launin, sérstaklega séu veikindin mjög alvarleg," segir Árni. Hann segir um 16 atvinnulausra kennara hafa gefið sig fram við Vinnudeilusjóðinn en fleiri séu skráðir atvinnulausir. Jóngeir Hlinason deildarstjóri atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun, segir unnið eftir lögum um atvinnuleysistryggingar. Atvinnulausir félagsmenn Kennarasambandsins fylgi meirihlutaákvörðun félagsmanna þess. Sömu reglur gildi um aðrar stéttir í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×