Innlent

Þroskahjálp gagnrýnir KÍ

Landssamtökin Þroskahjálp gagnrýna Kennarasamband Íslands fyrir að mismuna fötluðum börnum með undanþágum í kennaraverkfallinu eftir því hvar þau stunda nám. Þroskahjálp fagnar því að undanþágur skyldu hafa verið veittar fyrir fötluð börn í sérskólum en harmar um leið að öðrum undanþágubeiðnum vegna fatlaðra barna skuli hafa verið synjað á grundvelli þess að kennsla þeirra fari fram innan veggja hins almenna grunnskóla. Segir Þroskahjálp að með þessari afstöðu virðist Kennarasambandið með meðvituðum hætti vera að refsa þeim foreldrum sem valið hafi að senda börn sín í almennan skóla. Halldór Gunnarsson, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, segir undanþágurnar ekki veittar út frá því hvernig ástandið sé hjá nemendum og fjölskyldum þeirra heldur í hvaða umhverfi kennslan fer fram. Samtökin eru mjög óhress með þessa skipan mála enda hafi þau lengi barist fyrir skóla án aðgreiningar. Halldór segir þetta mjög skýr skilaboð frá kennerum. Halldór segir að Þroskahjálp muni leita skýringa hjá Kennarasambandinu og spyrja hvort það hafi breytt þeirri yfirlýstu stefnu sinni að jafnrétti til náms sé réttlætismál og að nemendur skuli eiga rétt á kennslu við hæfi í heimaskóla. Hægt er að hlusta á viðtal við Halldór Gunnarsson úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×