Innlent

Menntamálaráðuneytið ónauðsynlegt

"Ef ríkisstjórninni kemur ekki við hvað er að gerast í skólum landsins þá legg ég til að menntamálaráðuneytið verði lagt niður og það strax," segir Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands. Sorglegt væri að heyra ráðherra lýsa því yfir að þeim kæmi verkfall kennara ekki við. Hátt á annað þúsund kennara mætti á baráttufund kennarafélaga höfðuborgarsvæðisins í Háskólabíói í gær. Á fundinum greindu forystumenn frá stöðu samningaviðræðnanna við sveitarfélögin; sem eru í hnút. Finnbogi Sigurðsson sagði fulltrúa Launanefndar sveitarfélaganna gera sér vonir um að loka samningi á sömu launuhækkunum og samið var um við ASÍ félögin fyrr á þessu ári: "Með öðrum orðum á að reyna að troða okkur í sama pokann þó löngu sé ljóst að forsendur þeirra samninga eru brostnar." Finnbogi segir kennara hafa verið knúna eftir margra mánaða samningaviðræður að leggja niður störf. "Þetta gerðum við ekki að gamni okkar. Heldur vegna þess að lítið sem ekkert hefur verið komið til móts við sanngjarnar og hófstilltar kröfur okkar. [...] Skilaboð okkar til launanefnd sveitarfélaganna eru einfaldlega þessi: Farið nú heim í baklandið ykkar og sækið meiri peninga."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×