Innlent

Lýsir of­ríki og and­legu of­beldi Gunnars Smára

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, hefur boðað til skyndifundar vegna ásakana Karls Héðins Kristjánssonar, formann Ungra sósíalista, um andlegt ofbeldi.
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, hefur boðað til skyndifundar vegna ásakana Karls Héðins Kristjánssonar, formann Ungra sósíalista, um andlegt ofbeldi. Vísir/Vilhelm/Arnar

Forseti ungra Sósíalista hefur sagt sig úr kosningastjórn Sósíalistaflokksins í mótmælaskyni. Hann segist útskúfaður fyrir að segja sannleikann um „ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot“ Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar flokksins. Gunnar Smári hefur boðað til skyndifundar í kvöld vegna ásakananna.

Karl Héðinn Kristjánsson, sem sat í 2. sæti á lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík suður í síðustu Alþingiskosningum og er forseti ungra Sósíalista, birtir yfirlýsingu um þetta mál í Facebook-færslu upp úr 13.

„Ég hef tekið þá erfiðu en óhjákvæmilegu ákvörðun að segja af mér úr kosningastjórn Sósíalistaflokksins í mótmælaskyni eftir sameiginlegan fund stjórna síðastliðinn laugardag,“ segir Karl í færslunni. 

Ástæðan sé einföld. „Ég get ekki lengur starfað innan forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðheldur óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin,“ segir hann.

Segist útskúfaður fyrir að segja sannleikann

Hann hafi í mörg ár unnið af heilindum að því að byggja upp sterkan, lýðræðislegan og grasrótardrifinn flokk. Hann segist í staðinn hafa upplifað útskúfun fyrir að segja sannleikann um „ofríki, andlegt ofbeldi og trúnaðarbrot“ formanns framkvæmdastjórnar, Gunnars Smára Egilssonar.

Þeir sem verji Gunnar sama hvað á dynji hafi tekið þátt í þeirri útskúfun, jafnvel á meðan „þeir segjast styðja þolendur og berjast gegn ofbeldi,“ segir Karl.

Hann segist ekki einn um þessa upplifun og viti því miður um „þó nokkur dæmi þar sem öflugir félagar fælast frá starfi vegna sambærilegra upplifanna“.

„Lítill valdakjarni“ hunsað vinnu grasrótarinnar

Ástæðuna fyrir endanlegri ákvörðun Karls virðist mega rekja til vinnuhelgar Sósíalistaflokksins þar sem félagsmenn og frambjóðendur úr öllum kjördæmum komu saman til að gera upp kosningabaráttuna. Þar hafi verið unnin frábær vinna og kalla Karl eftir því að fundargerð og skýrsla verði gerðar opinberar á vefsíðu flokksins. 

Mikil samhljómur hafi verið um þrennt. Í fyrsta lagi að auka gagnsæi og lýðræði í flokknum með reglulegum félagsfundum, í öðru lagi að valdefla landsbyggðina með stofnun svæðisfélaga og kjördæmisráða og í þriðja lagi að endurskoða nýtingu fjármuna flokksins svo „þeir renni í raunverulega uppbyggingu flokksstarfsins, en ekki í verkefni utan lýðræðislegs eftirlits félagsmanna.“

Frekar en að vinna upp úr niðurstöðu vinnuhelgarinnar segir Karl að „lítill valdakjarni innan framkvæmdastjórnar“ hafi ákveðið að hunsa hana og boða til sameiginlegs fundar stjórna um niðurstöðu netkönnunar. Hún hafi verið túlkuð var þannig að „allt væri í lagi.“ 

„Gagnrýni var afskrifuð sem fáfræði og niðurrifsstarfsemi, og enn á ný var reynt að þagga niður í þeim sem vilja bæta flokkinn undir formerkjum þess að þeir sem gagnrýni séu fáfróðir eða hreinlega illa innrættir,“ segir Karl.

Að hunsa vinnu virkrar grasrótar, stjórnarmanna og frambjóðenda úr Alþingiskosningunum á þennan máta segir Karl að séu ömurleg vinnubrögð.

Enn fremur segir Karl að Gunnar Smári hafi sniðgengið vinnuhelgina þrátt fyrir að vera formaður framkvæmdastjórnar og oddviti flokksins í Reykjavík norður í síðustu kosningum. Þess í stað hafi hann „haldið áfram að úthýsa gagnrýnisröddum og gaslýsa þá sem kalla eftir eðlilegri endurskoðun á störfum hans,“ segir Karl.

Alþýðufélagið sé einkafélag Gunnars Smára

Þá segir hann að Alþýðufélagið og Vorstjarnan fá samanlagt nær öll framlög Sósíalistaflokksins þrátt yfrir að hvorugt þeirra starfi eftir opnum og lýðræðislegum reglum. 

„Alþýðufélagið, sem á og rekur Samstöðina, er í raun einkafélag Gunnars Smára. Stjórn þess er sýndarstjórn, engir félagsfundir eru haldnir, og engin leið er fyrir almenna félagsmenn að hafa áhrif á starfsemi þess,“ segir Karl.

Hann greinir frá því að hann hafi lagt sig allan fram við að byggja upp Samstöðina. Hann hafi unnið óteljandi klukkutíma í sjálfboðaliðavinnu og geri enn að töluverðu leyti. Hann hafi byggt upp stúdíóið, sinnt fréttaskrifum, dagskrárgerð og tæknimálum. Iðulega hafi hann unnið tíu tíma á dag og oft um helgar. 

„Þrátt fyrir það neitaði Gunnar Smári að greiða mér umsamin (og mjög lág) laun síðla sumars 2023 með þeim rökum að ég væri ekki að skila af mér þremur fréttum á dag. Ég hætti í kjölfar þess og reyndi að bjóða mig fram í stjórn Alþýðufélagsins en var einfaldlega bannað það. Það eru óásættanleg vinnubrögð innan sósíalískrar fjöldahreyfingar,“ segir í færslunni.

Loks segist Karl ekki vera að gefast upp á hreyfingunni, hann muni áfram vinna með ungliðadeildinni og að skipulagi félagsstarfs fram að aðalfundi. Þar muni hann og fleiri félagar beitar sér fyrir breytingum á flokksstarfinu.

Boðað til skyndifundar

Um klukkutíma eftir yfirlýsingu Karls Héðins birti Gunnar Smári færslu á Rauða þræðinum, umræðuhópi Sósíalistaflokksins, þar sem hann boðaði til opins skyndifundar með formanni framkvæmdastjórnar í tilefni af ásökunum Karls.

Fundurinn verður haldinn klukkan 18 í kvöld í félagsheimili Vorstjörnunnar í Bolholti 6 og er öllum opinn.

Gunnar segist þar munu fara yfir opið bréf Karls, ræða þau atriði þess sem snúi að honum og greina frá starfi flokksins á undanförnum misserum. 

„Þau sem vilja kynna sér málin í kjölfar lestrar bréfs Karls eru hvött til að mæta,“ segir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×