Innlent

Óbreytt staða í kennaradeilu

Samninganefnd kennara mætti til ríkissáttasemjara í morgun en samninganefnd sveitarfélaga hittir hann eftir hádegi. Finnbogi Sigurðsson, formaður samninganefndar kennara, segist ekki vilja ræða niðurstöðu fundarins sem hafi staðið í stutta stund. Farið hafi verið yfir stöðuna sem sé óbreytt. Enginn sáttafundur verður í kennaradeilunni í dag en nefndirnar hitta ríkissáttasemjara hvor í sínu lagi. Launanefnd sveitarfélaganna hitti samninganefnd sveitarfélaga í morgun en ekki er vitað á þessari stundu hvort sá fundur hafi falið eitthvað nýtt í sér. Ríkissáttasemjari tekur ákvörðun eftir fundinn með samninganefnd launanefndarinnar hvort boðað verður til nýs sáttafundar. Þá hefur verið boðað til fundar í undanþágunefnd verkfallsins síðdegis í dag en nefndin hefur ekki komið saman í tæpar tvær vikur. Tuttugu umsóknir um undanþágu bíða afgreiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×