Innlent

330 milljónir greiddar úr sjóðnum

Greitt verður öðru sinni úr verkfallssjóði kennara á morgun. Þá verður búið að greiða rúmar 330 milljónir króna úr sjóðnum. Formaður vinnudeilusjóðsins segir sjóðinn þola átta vikna verkfall grunnskólakennara og átta vikna verkfall leikskólakennara en trúir því varla að deilan dragist svo á langinn. Fjórðu viku kennaraverkfallsins fer að ljúka. Á morgun verður kennurum greitt öðru sinni úr vinnudeilusjóði kennara en greiddar eru tvær vikur í einu. Árni Heimir Jónsson, formaður sjóðsstjórnar, segir að þá verði búið að greiða rúmar 330 milljónir króna úr sjóðnum af u.þ.b. 900 milljónum sem þar voru til í byrjun verkfalls. Hver kennari fær 3000 krónur á dag úr sjóðnum eða um 90.000 krónur á mánuði. Ekkert þokast í samkomulagsátt og lítið fundað og því útlit fyrir að verkfall dragist enn á langinn. Ofan á það bætist að leikskólakennarar hafa verið með lausa samninga síðan í lok ágúst og segir Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, að það ráðist ekki fyrr en í lok nóvember hvort boðað verði til verkfalls. Árni Heimir segist ekki óttast að verkfallssjóðurinn tæmist í grunnskólaverkfallinu. Hann telur sjóðinn þola átta vikna verkfall grunnskólakennara og átta vikna verkfall leikskólakennara þar sem leikskólakennarar séu mun fámennari stétt en grunnskólakennarar, eða rétt um 1200, á móti tæplega 4000 stöðugildum grunnskólakennara. Hann segist ekki vilja trúa því að verkföll þessarra stétta verði svo löng að verkfallssjóðirnir tæmist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×