Innlent

Sýna okkur ekki hvað þeir bjóða

Tvennt kemur í veg fyrir að kennarar geti gengið að tilboði samninganefndar sveitarfélaganna frá í síðustu viku, segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands. Annað er að samninganefnd sveitarfélaganna hafi ekki enn sýnt hvað nákvæmlega sé verið að bjóða kennurum, en hitt er að vinnutímalækkun komi ekki fram fyrr en seint og síðar meir. "Í fyrsta lagi hafa þeir ekki sagt okkur hvað þeir eru að bjóða okkur. Það er grundvallaratriði. Við höfum verið með mjög skýra kröfu upp á ákveðna upphæð. Við höfum spurt á móti hvað það sé í raun sem þeir eru að bjóða okkur þannig að við getum séð hver okkar prósenta er og hver þeirra prósenta er. Því hafa þeir ekki getað svarað," segir Eiríkur. Hitt er að þrátt fyrir að sveitarfélögin bjóði kennslulækkun komi hún ekki fram fyrr en seinna, einn klukkutími eftir ár og annar ekki fyrr en eftir fjögur ár. "Ef vinnutímabreytingin væri í nútíðinni en ekki einhvern tíma inni í framtíðinni liti myndin öðruvísi út. Fólk sem er búið að vera einhverjar vikur í verkfalli og fórna miklu horfir á daginn í dag og daginn á morgun og næstu daga. Það kaupir það enginn út úr verkfalli fyrir eitthvað sem á að gerast 2008." Annað sem kemur í veg fyrir þetta er að ef forsendur samningsins bresta á samningstímanum glata kennarar seinni tímanum ef þeir segja samningnum upp, en það segir Eiríkur ekki koma til greina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×