Innlent

Deilan mjög snúin

"Kennarar tóku ákvörðun um að fara í verkfallið, það ákváðu ekki sveitarfélögin, og kennarar ákveða hvenær því lýkur," segir Birgir Björn Sigurjónsson, formaður Launanefndar sveitarfélaganna. Um hvað skýri mikla aðsókn í kennaranám þrátt fyrir lág laun segir hann."Mér hefur sýnst að aðsóknin í störf kennara og í námið sýni að launin séu ekki hindrun. En ég get einnig sagt að ef eitthvað þarf að laga er það fyrst og fremst laun yngstu kennaranna. Það er í okkar augum forgangshópurinn," segir Birgir Björn. "Mér finnst það raunverulega ekki með jafn ljósum hætti í tillögum forystu kennara og okkar. Mér finnst hún svona frekar vilja gera meira fyrir alla." Birgir Björn segir að hann heyri á kennurum að sveitarfélögin hafi ekki fjárhagslega getu til að verða við kröfum þeirra. "Af þeim sökum hafa þeir verið að snúa sér til allra mögulega annarra, sérstaklega ríkisins, með kröfur um að það borgi það sem upp á vantar," segir Birgir Björn. Það sýni að kröfur kennara séu of háar og óraunsæar: "Ég á líka erfitt með að sjá hvernig ríkið getur farið að koma inn og borga hluta launa hjá einstökum starfsmannahópum sveitarfélaganna." Deilan sé mjög snúin. Birgir Björn segir vonbrigði að kennarar hafi ekki litið á samning sveitarfélaganna sem lagður var fyrir þá í síðustu viku. Tilboðið hafi verið mun hærra en það fyrra sem hljóðaði uppá 18,6% hækkun launatengdra gjalda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×