Innlent

Eiríkur útilokar lagasetningu

Ekki er í bígerð að setja lög á verkfall kennara, segir Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambands Íslands: "Lagasetning er út úr myndinni. Ég treysti þeim heimildum sem ég hef." Eiríkur segir lagasetningu eyðileggja fyrir öllu skólastarfi. "Menn eru ekki dæmdir í nauðungarvinnu inni í skólunum. Starf kennara er öðruvísi en það." Birgir Björn Sigurjónsson formaður Launanefndar sveitarfélaganna segir kappsmál samninganefndanna að leysa málin án lagasetningar. Þær hafi þó ekki ótakmarkaðan tíma. "Það er vaxandi þungi í kröfunni að við hröðum störfum okkar. Það er ekki þar með sagt að lagasetning eigi rétt á sér." Efnisleg umræða á fundi sáttasemjara í gær var ekki ýkja mikil, segir Birgir Björn. Ákveðið hafi verið að tveir nefndarmenn skólastjóra, grunnskólakennara og Launanefndar hittist klukkan eitt. Fleiri týnist til fundarins seinni part dags: "Aðal fréttin eftir fund dagsins er að menn eru aftur farnir að ræða saman."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×