Innlent

Halldór treystir deilendum

Forsætisráðherra segir að ekki standi til að setja lög á kennaraverkfallið. Hann segir mikilvægt að leysa málið en deilendur verði að gera það og það verði að treysta forystumönnum þeirra til þess. Fimmta vika verkfalls grunnskólakennara stendur nú yfir með þeim afleiðingum meðal annars að 45 þúsund skólabörn eru án kennslu. Gunnar I. Birgisson, formaður menntamálanefndar Alþingis, hefur lýst þeirri skoðun sinni að ekki sé hægt að bíða endalaust eftir að deilendur nái saman. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir ekkert uppi á borðum um það og segir mikilvægt að aðilar fái frið til að vinna í málinu. Spurður hvort stjórnvöld geti setið endalaust hjá segir forsætisráðherra að treysta verði deiluaðilum til að skila því verkefni sem þeim sé falið. Sem kunnugt er hafa stjórnvöld sett lög á verkföll sjómanna ítrekað en forsætisráðherra vill ekki svara því hversu lengi þetta verkfall getur gengið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×