Innlent

Óskiljanleg ummæli

"Ég tel þessi ummæli óskiljanleg með öllu," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra lét á föstudag þau orð falla að skoða mætti að flytja grunnskólana aftur til ríkisins. "Ég átta mig alls ekki á því hvert ráðherra er að fara með þessu," segir Vilhjálmur. "Ég tel fráleitt að grunnskólinn fari aftur til ríkisins og tel að flestir geti verið sammála um það." Þá telur Vilhjálmur mikinn misskilning að kennarar næðu betri samningum undir stjórn ríkisins og reynslan frá því að grunnskólar heyrðu undir ríkið sýni það augljóslega. Vilhjálmur segir ekki vera í myndinni að hvert sveitarfélag semji sér við sína kennara. "Það var ósk forystu kennara að sveitarfélögin hefðu eina miðlæga samninganefnd eins og kennarar hafa," segir Vilhjálmur. "Að minni hyggju kemur því ekki til álita að ein miðlæg samninganefnd kennara í Reykjavík semji sérstaklega við hvert sveitarfélag út af fyrir sig."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×