Menning

Skólavefir á netinu

Áhugi á vefjum sem bjóða upp á námsefni hefur aukist nokkuð nú í verkfalli grunnskólakennara. Skólavefurinn hefur starfað í fjögur ár en þar er að finna ýmislegt efni fyrir grunnskólabörn, börn í leikskóla og einnig framhaldsskólanema. Vefurinn er áskriftarvefur og nú eru 5.000 skráðir notendur, en þar fyrir utan eru 92% grunnskóla landsins í áskrift. Ingólfur Björgvinsson, einn umsjónarmanna vefsins, segir að nýtt efni sé uppfært á hverjum degi. "Við reynum að hafa þetta fjölbreytt þannig að allir aldurshópar finni eitthvað sem þeim líkar. Það sem hefur gerst núna er að nemendur og foreldrar sækja mikið til okkar. Hægt er að komast inn á vefinn með því að slá inn skolavefur.is. Námsgagnastofnun er einnig með vef sem opinn er öllum. Hrafnhildur Hafsteinsdóttir kynningarfulltrúi Námsgagnastofnunar segir margt fólk hringja inn með fyrirspurnir, bæði foreldrar og nemendur, og þó að vefurinn sé fyrst og fremst ætlaður kennurum sé hann gagnlegur öllum. "Við erum með mikið af gagnvirku efni og verkefnum til útprentunar sem börn á öllum aldri geta nýtt sér. Þá má ekki gleyma heilmiklu efni fyrir litlu krakkana sem eru að læra að lesa og reikna. Fyrir þau er mikið í boði af leikjum sem nýtast þeim í náminu." Vefur Námgagnastofnunar er nams.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×