Innlent

Harma ásakanir á embættismenn

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og byggingarnefnd fengu ekki að leggja fram bókun í nefndinni í gær, þar sem ásakanir R-listans á einstaka embættismenn borgarinnar í fjölmiðlum voru harmaðar. Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að bókuninni hafi verið vísað frá. Hann ætli hins vegar að leggja hana fram í borgarráði í dag. Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúi R-listans og formaður skipulags- og byggingarnefndar, sagði í viðtali við Fréttablaðið að vegna mistaka við gerð aðalskipulags hefði Nóatún fengið að opna verslun við Þjóðhildarstíg í Grafarholti. Hún sagði: "Embættismenn skipulags- og byggingarsviðs gerðu þessi mistök þegar verið var að samþykkja nýtt aðalskipulag." Guðlaugur Þór segir að sambærileg mál hafi komið upp varðandi bensínstöð við Staldrið. Hann segir sjálfsagt að stjórnmálamenn takist á í fjölmiðlum og annars staðar en starfsfólk borgarinnar eigi ekki að þurfa að verða fyrir árásum frá pólitískum yfirmönnum sínum á opinberum vettvangi. R-listinn axli ábyrgðina á mistökunum í Grafarholti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×