Innlent

Skeljungur fær ekki afslátt

Olíufélögin þrjú buðu öll Samkeppnisstofnun aðstoð við að ljúka rannsókn verðsamráðsins. Stjórnarmenn Essó riðu á vaðið nokkrum mánuðum eftir húsleit Samkeppnisstofnunar í húsakynnum olíufélaganna árið 2001. Í kjölfarið óskuðu Olís og Skeljungur einnig eftir að veita aðstoð. Fyrirtæki sem veita upplýsingar sem fela í sér mikilvæga viðbót við þau sönnunargögn sem Samkeppnisstofnun hefur þegar í fórum sínum geta fengið sekt lækkaða. Fyrsta fyrirtækið sem leitar samstarfs við Samkeppnisstofnun og uppfyllir skilyrði fyrir lækkun sektar getur fengið hana lækkaða um 30- 50%, annað fyrirtækið um 20 -30% og önnur fyrirtæki um allt að 20%. Það var mat samkeppnisráðs að Essó hafi látið Samkeppnisstofnun í té upplýsingar sem réttlætti að sektarupphæð félagsins sé lækkuð um 45% og verði 605 milljónir króna. Sektarupphæð Olís lækkar um 20% og verður 880 milljónir. Samkeppnisráð mat þá aðstoð sem Skeljungur kvaðst tilbúinn til að veita, ekki fela í sér viðbót við þau sönnunargögn sem þegar voru fyrir hendi. Því mun félagið greiða sekt upp á 1,1 milljarð króna að fullu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×