Innlent

22 milljónir á áratug

Framlög Olíufélagsins ehf. og forvera þess, Olíufélagsins hf., til stjórnmálaflokka og ýmissa stjórnmálaframboða á árunum 1994 til 2004 voru samtals 21,6 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins. Ekki kemur fram hvernig framlögin skiptast á milli flokka og tekið fram að það teljist trúnaðarmál. "Almennt í öllum okkar styrkjum, til stjórnmálaflokka eða hverra sem er, lítum við á sem svo að trúnaður ríki milli aðila," sagði Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Olíufélagsins. Hann segir eðlilegt að gera ráð fyrir því að trúnaður ríki um framlög sem ekki hafi sérstaklega verið talað um að yrðu opinber. Eftirleiðis segir Hjörleifur hins vegar að upplýsingar um framlög fyrirtækisins verði opinberar. Af framlögum félagsins til flokka og framboða á árunum 1994 til 2004 var fjórðungur vegna sveitarstjórnarmála. Þá eru taldar með greiðslur fyrir auglýsingar í blöðum og tímaritum stjórnmálaflokka og framboða. "Á árunum 2003 og 2004 eru heildarframlög til stjórnmálaflokka samtals 2,1 millj.kr. og er sú fjárhæð innifalin í ofangreindri heildarupphæð," segir í tilkynningu Olíufélagsins, en nýir eigendur komu að félaginu í maílok í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×