Innlent

Ísland ber ábyrgð á stríðsglæpum

Enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar var viðstaddur umræðu á Alþingi í gær, þar sem ríkisstjórnin var sökuð um að bera ábyrgð á stríðsglæpum sem framdir væru þessa dagana borginni Fallujah í Írak. Til umræðu var tillaga formanna allra stjórnarandstöðuflokkanna um að hætta stuðningi við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak og stofna rannsóknarnefnd til að grafast fyrir um orsök stuðningsins Íslands við stríðið. Fyrsti flutningsmaður Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar sagði: "Ég kenni til að vera Íslendingur og bera siðferðilega ábyrgð. Voðaverkin í Falluja eru á ábyrgð allra þeirra 30 þjóða sem eru á lista yfir hinar viljugu þjóðir." Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar varð til andsvara af hálfu stjórnarliða.. Sagði hún að Ísland hefði treyst því mati bandamanna að heimsfriðnum hefði stafað hætta af ógnarstjórn Saddams Hússeins. "Við erum ekki í stakk búin til að véfengja slíkar upplýsingar, við höfum ekki leyniþjónustu." Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu gagnrýndi málflutning Sólveigar og spurði hvort henni væri ekki kunnugt um að engin gereyðingarvopn hefðu fundist í Írak og viðurkennt væri að Al Quadea ætti ekki "lögheimili" í Bagdad eins og fullyrt hefði verið fyrir innrás. Hvössustu orðaskiptin urðu þegar Ögmundur Jónasson, vinstri grænum líkti framferði Bandaríkjamanna í írak við nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Sagði að hann að Bandaríkjamenn væru að fremja stríðsglæpi í Fallujah og kallaði George W. Bush, forseta "stríðsglæpamann": "Í Fallujah er verið að fremja stríðsglæpi á ábyrgð íslenskra stjórnvalda." Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki gerði harða hríð að Ögmundi og benti á að hann hafi verið andsnúinn bæði innrásinni og viðskiptaþvingunum Sameinuðu Þjóðanna gegn Írak: "Hann vildi una því að Saddam Hússein yrði harðstjóri um ókomin ár."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×