Skoðun

Nýr utanríkisráðherra í BNA

Þórlindur Kjartansson skrifar
Ný utanríkisráðherra Bandaríkjanna er af flestum talin vera herskárri og foringjahollari en forveri hennar í embætti Colin Powell. Powell naut ekki stuðnings hennar þegar hann lýsti efasemdum sínum um aðdraganda innrásar Bandaríkjanna í Írak. Þvert á móti er hún í hópi hörðustu stuðningsmanna hernaðaríhlutunar Bandaríkjanna annars staðar í heiminum.

Á vef The Economist er rifjað upp að um svipað leyti og Rice skaust fram á sjónarsviðið sem tilvonandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna árið 2000 birtist grein eftir hana í hinu virta tímariti Foreign Affairs. Í þeirri grein fjallar hún um minnkandi vilja Bandaríkjamanna til að beita afli sínu á alþjóðavettvangi og segir að Bandaríkin eigi ekki að skirrast svið að beita herafli til þess að tryggja hagsmuni sína. Samkvæmt þessu telst hún til ný-íhaldsmanna (neo-conservatives) sem prédika eflingu hernaðarmáttar Bandaríkjanna.

Í bók Bob Woodward, Bush at War, kemur fram að Rice hafi verið einn allra nánasti ráðgjafi Bush í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Þegar hann tók ákvörðun um að Bandaríkin gerðu ekki greinarmun á ríkjum sem styddu eða skýldu hryðjuverkamönnum ráðfærði hann sig einungis við Rice og Karen Hughes sem þá var helsti ráðunautur Bush í fjölmiðlamálum.

Rice er einnig lýst í bók Woodward sem manneskjunni sem gjarnan brúaði bilið á milli harðlínumanna í stjórninni, þar sem Cheney og Rumsfeld fóru fremstir, og hinna varfærnari með Powell í broddi fylkingar. Rice átti í gott trúnaðarsamband við Powell og í þau fáu skipti sem Powell átti kost á að ræða við forsetann án viðveru "haukanna" var Rice undantekningarlítið viðstödd.

Þær breytingar sem þegar hafa verið tilkynntar á ráðuneyti Bush benda ekki til þess að forsetinn hafi í hyggju að mýkja stefnu sína - hvorki í utanríkis- eða innanríkismálum. Rice hefur skoðanir sem falla mun betur að stefnu Bush heldur en Powell hafði og því er ósennilegt að nýr utanríkisráðherra muni beina stefnu Bandaríkjamanna í annan farveg. Þeir sem hafa efasemdir um utanríkisstefnu Bandaríkjanna hafa ástæðu til að álykta sem svo að bandamönnum þeirra í Hvíta húsinu hafi fækkað um einn. Þeir sem styðja utanríkisstefnuna ættu hins vegar að fagna valinu á nýjum ráðherra.



Þórlindur Kjartansson

thkjart@frettabladid.is




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×