Viðskipti innlent

Hefðu fengið lítinn stuðning

Skattkerfisbreytingar sem eingöngu hefðu komið þeim lægst launuðu til góða hefðu lítinn stuðning fengið hjá skattgreiðendum, að mati forstöðumanns Hagfræðistofnunar. Sitt sýnist hverjum um fyrirhugaðar skattabreytingar. Forsætisráðherra fullyrðir að ráðstöfunartekjur aukist mest hjá þeim sem minnst hafa á meðan aðrir segja þær gagnast helst eignamiklu hátekjufólki. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, fer bil beggja og segir eitthvað í þeim fyrir alla, þá sérstaklega vegna hækkunar á persónuafslætti. Hann segir að skatturinn fyrir þá sem borga aðeins 15 þúsund krónur í skatt núna muni hverfa. Barnabætur virðast hækka verulega að sögn Tryggva og fyrir millistéttarfók og þá sem eru með hærri tekjur virðast skattprósenturnar nýtast mjög vel. Að mati hagfræðings Félags eldri borgara hefði verið nær að hækka skattleysismörkin enn frekar og koma þannig á móts við þá tekjulægstu. Tryggvi segir að vissulega hefði verið hægt að hækka þau meira, og þá jafnvel gera breytingar sem hefðu eingöngu komið hinum lægst launuðu til góða, en efast um mikinn stuðning við slíkar breytingar hjá millistéttinni og þeim sem borga skattanna. „Við verðum að muna það að þeir sem borga skatta í þessu landi, af þeim sem eru á vinnualdri, eru aðeins um þriðjungur,“ segir Tryggvi. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×