Innlent

Skilar 340 milljónum í ríkissjóð

Áfengisgjald á sterkt vín og tóbaksgjald ríkisins hefur hækkað um sjö prósent. Alþingi samþykkti hækkunina í fyrrakvöld og er talið að hún skili ríkissjóði 340 milljónum króna í tekjur á ársgrundvelli. Reiknað er með því að hækkun áfengisgjaldsins leiði til þess að smásöluverð á sterku víni hækki um 5,6 prósent. Þá er búist við því að hækkun tóbaksgjaldsins verði til þess að tóbak hækki um 3,7 prósent að jafnaði. Áfengisgjald léttra vína og bjórs verður óbreytt. Geir H. Haarde fjármálaráðherra lagði frumvarpið fram. Í því segir að hækkunin sé í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2005. Áfengisgjald og tóbaksgjald hafi ekki hækkað síðan í lok nóvember árið 2002, þróun þeirra gjalda hafi ekki verið í samræmi við almennt verðlag og í raun hafi þau lækkað að raungildi. Tillaga um hækkun nú sé því í samræmi við þróun almenns verðlags á síðustu árum. Í frumvarpinu kemur fram að áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs séu talin verða um 0,08 prósent. Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd gagnrýndu hækkunina. "Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar fjármálaráðherra um skattabyltingu er hér á ferðinni frumvarp sem felur í sér að bein útgjöld landsmanna í formi skatta aukast um 340 milljónir," segir í áliti þingmanna Samfylkingarinnar. "Að auki mun hækkunin sem frumvarpið felur í sér leiða til þess að neysluvísitalan hækkar um 0,08 prósent. Það þýðir að skuldaklyfjar landsmanna munu aukast um fast að einum milljarði króna." Samfylkingarþingmennirnir segja að með þessari hækkun og hækkunum á öðrum gjöldum á sköttum á þessu og síðasta ári sé ríkisstjórnin þegar búin að fjármagna skattalækkanir næsta árs. "Samtals má meta hækkanir síðasta árs og þessa á allt að 5 milljarða króna," segir í áliti þingmanna Samfylkingarinnar. "Það er hærri tala en sú skattalækkun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt fyrir næsta ár."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×