Innlent

Breytingartillaga um Mannréttindaskrifstofu felld

Fjárlög næsta árs voru samþykkt á Alþingi um hádegi í gær með 31 atkvæði stjórnarliða, meðan 24 stjórnarandstöðuþingmenn sátu hjá. 8 þingmenn voru fjarverandi. Samkvæmt fjárlögunum á að verða um 10 milljarða afgangur á ríkissjóði. Fjölmargar breytingatillögur stjórnarandstöðu voru felldar í atkvæðagreiðslum fyrir hádegi, en stjórnarandstaðan sat hjá í atkvæðagreiðslu um lögin þar sem hún telur þau sjónarspil sem fái ekki staðist. Meðal breytingatillagna sem felldar voru var tillaga um að Alþingi veitti fé til að reka Mannréttindaskrifstofu. Stjórnarandstaðan sagði það gert til að skrifstofan ætti ekki allt sitt undir framkvæmdavaldinu. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, benti á að tillagan væri samhljóða minnisblaði sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þá utanríkisráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn fyrir sjö árum síðan. Ein breytingartillaga var samþykkt en hún sneri að heiðurslaunum listamanna, en 27 listamenn fá 1,6 milljónir í heiðurslaun á næsta ári. 52 samþykktu, 1 sagði nei og 9 voru fjarverandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×