Erlent

Smokkur í nöfnum Kóreumanna

Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Kóreu hafa hætt við að reyna að finna kóreskt orð yfir smokka. Kóreumenn hafa um áratuga skeið notað engilsaxneska orðið condom yfir smokka. Heilbrigðisnefnd sem berst gegn alnæmi fékk þá snjöllu hugmynd að finna kóreskt orð yfir þetta þarfaþing og lýsti eftir hugmyndum. Og ekki stóð á þeim. Nítján þúsund tillögur bárust. Úr þeim valdi nefndin tillöguna „Æ Píl“ sem er dregið af kínversku tákni fyrir ást og nauðsyn. Nefndin kynnti svo stolt þetta nýja orð en þá varð allt vitlaust. Mýgrútur af Kóreumönnum mótmælti á þeirri forsendu að „Æ Píl“ líktist um of táknum í nöfnum þeirra. Meðal þeirra sem hringdu var háöldruð kona sem óttaðist að sonarsyni hennar yrði strítt ef amma hans héti allt í einu smokkur. Baráttunefndin hefur því fallið frá öllum hugmyndum um að breyta um nafn. Kóreumenn munu þess vegna halda áfram að draga á sig condom þegar þeir vígbúast fyrir ástarleiki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×