Sport

Þrettán stig á 35 sekúndum

Áhorfendum á leik Houston Rockets og San Antonio Spurs í NBA-körfuboltanum í fyrrinótt þótti ekki mikið til McGradys koma þegar rúm mínúta var til leiksloka. Þá höfðu gestirnir í Spurs 10 stiga forystu, 74--64, og lítið sem ekkert sem benti til að það myndi breytast fyrir leikslok. Hægt og rólega tóku áhorfendur að týnast út úr höllinni í þeirri trú að þetta væri búið spil. Þá tók Tracy McGrady, leikmaður Rockets, til sinna ráða og skoraði 13 stig á síðustu 35 sekúndum leiksins. Hann skoraði fjórar þriggja stiga körfur í röð og þar af var ein sem tryggði Rockets eins stigs forystu þegar 1,7 sekúndur voru til leiksloka. "Ég vildi frekar taka þrist heldur en að jafna. Karfan var óvenju stór í kvöld," sagði McGrady. Áhlaup McGradys minnir um margt á gamla rispu frá Reggie Miller þegar hann skoraði átta stig á 8,9 sekúndum í sigurleik Indiana Pacers á New York Knicks, 107-105, í undanúrslitum Austurdeildarinnar 1995. "Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður og er frábær tilfinning," sagði McGrady. "Fyrir alla þá sem fóru snemma; þið misstuð af frábærum leik." Rockets hafði tapað sjö leikjum í röð gegn San Antonio Spurs og vann um leið þriðja leik sinn í röð í fyrsta sinn á tímabilinu. Jeff Van Gundy, þjálfari Rockets, var í skýjunum í leikslok. "Stundum þegar maður leggur hart að sér gerast kraftaverk," sagði Van Gundy. Tim Duncan sagði tapið hafa verið gríðarlega svekkjandi fyrir sína menn enda liðið með unnin leik í höndunum þegar ein mínúta var eftir. "Þeir spiluðu vel síðustu 50 sekúndurnar, sérstaklega Tracy. Þeir fundu leið að körfunni og sárt tap er staðreynd," sagði Duncan sem var bestur í liði Spurs, skoraði 26 stig og tók 18 fráköst. McGrady var besti maður vallarins með 33 stig, 8 fráköst og 5 stolna bolta. smari@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×