Innlent

Alsæl með þessa ákvörðun

Rúmlega þrjú ár eru liðin frá því að Ingibjörg Pálmadóttir hætti sem heilbrigðisráðherra. Hún hafði þá verið 20 ár í stjórnmálum, fyrst í bæjarmálunum á Akranesi, síðan sem alþingismaður og loks sem ráðherra. Þetta voru því mikil viðbrigði. Ingibjörg tók því rólega fyrst í stað en fór svo fljótlega að starfa fyrir Velferðarsjóð barna sem heilbrigðisráðuneytið og Íslensk erfðagreining standa sameiginlega að. Hún var í hlutastarfi fyrstu tvö árin en síðasta árið hefur hún verið í fullu starfi. Ingibjörg hné niður í beinu sjónvarpsviðtali frá Alþingi í janúarbyrjun 2001 og var lögð inn á sjúkrahús. Sex vikum síðar mætti hún galvösk til starfa í ráðuneytinu og á Alþingi en skömmu síðar ákvað hún að draga sig í hlé. Hún segist vera alsæl með þessa ákvörðun sína og "ég er líka alsæl með þann tíma sem ég var í stjórnmálum. Ég var í stjórnmálum í 20 ár og svo fannst mér einn daginn að þetta væri orðið fínt. Mig langaði til að fara að gera eitthvað annað og er búin að gera ýmislegt," segir hún. Ingibjörg er ánægð með ríkisstjórnina þessa dagana og telur hana standa sig vel. Staða kvenna innan Framsóknarflokksins hefur talsvert verið til umræðu og Ingibjörg segir að sú umræða þurfi stöðugt að eiga sér stað. "Menn mega ekki gleyma sér. Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka náð því að hafa jafnmikið vægi milli kvenna og karla í ríkisstjórn. Það hefur aldrei gerst á Íslandi. Nú eru þrjár konur í ríkisstjórn. Auðvitað verða alltaf einhverjar sveiflur í þessu en það er um að gera að minna á mikilvægi þess að hafa jafnvægi í byggðum landsins. Þær gera það mjög myndarlega. Miðað við þátttöku kvenna í stjórnmálum þá hefur Framsóknarflokkurinn verið mjög vakandi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×