Sport

Íshokkífólk ársins valið

Jónas Breki Magnússon og Anna Sonja Ágústdóttir voru í gær útnefnd íshokkífólk ársins hjá Íshokkísambandinu fyrir framúrskarandi árangur í íþróttinni en bæði hafa þrátt fyrir ungan aldur þegar látið verulega að sér kveða og eiga langa og góða framtíð fyrir sér næstu árin. Jónas Breki Magnússon er 24 ára gamall og einn af fáum íslenskum leikmönnum sem spila erlendis en hann leikur með danska liðinu Gladsaxe og hefur gert um hríð. Áður var hann lengi með liði Bjarnarins úr Grafarvogi en Jónas Breki var meðal annars valinn besti leikmaðurinn á heimsmeistaramóti karla í þriðju deild sem fram fór hérlendis fyrr á þessu ári. Tímabil hans hjá Gladsaxe hefur gengið vel og hann er meðal markahæstu manna í dönsku íshokkídeildinni. Anna Sonja Ágústdóttir leikur með Skautafélagi Akureyrar og hefur gert um árabil þrátt fyrir að vera aðeins sextán ára gömul. Hóf hún fyrst að æfa íshokkí sex ára og hefur meira eða minna spilað og æft síðan þá. Hún er einn burðarásanna í kvennaliði SA og á framtíðina aldeilis fyrir sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×