Innlent

Kókaínhylki sótt með skurðaðgerð

Náð var í um sextíu kókaínhylki í görn fíkniefnasmyglara með skurðaðgerð á mánudag. Smyglarinn, sem er Íslendingur um þrítugt, var handtekinn við komuna til landsins á sunnudag og leiddi röntgenskoðun í ljós að hann væri með aðskotahluti innvortis. Maðurinn var að koma frá Frankfurt í Þýskalandi þegar hann var tekinn. Við aðra röntgenskoðun á mánudag kom í ljós að fíkniefnapakkningarnar voru fastar í meltingakerfi mannsins. Hann samþykkti að fara í uppskurð til að sækja efnin því ljóst þótti að þau skiluðu sér ekki úr líkamanum með öðrum hætti. Í hylkjunum reyndust vera rúm 200 grömm af kókaíni. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík, segir ekki hafa verið ástæðu, á þessu stigi málsins, til að fara fram á gæsluvarðhald yfir manninum. Hann liggur nú á sjúkrahúsi og jafnar sig eftir aðgerðina. Jónas Magnússon skurðlæknir segir aðgerð, eins og þurfti að gera manninum, ekki vera sérstaklega stóra né hættulega. Opna þarf kviðarhol með litlum skurði og síðan þarf að opna görnina þar sem aðskotahlutirnir eru. Einstaklingsbundið er hversu langan tíma tekur að jafna sig eftir slíka aðgerð en sýkingarhætta er alltaf fyrir hendi þegar garnir eru opnaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×