Jafnframt er lögð til uppsetning á samþættingarmiðstöð öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, en það yrði gert í samvinnu við ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæsluna og CERT-IS. Þar að auki yrði ráðist í kaup á búnaði til að nema og stöðva ólöglega dróna.
Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins, en þar segir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefði í dag kynnt ríkisstjórninni fyrir tillögu að mótun stefnu í öryggis og varnarmálum landsins í dag.

„Stefnunni er ætlað að lýsa helstu öryggisáskorunum til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógnir og draga fram markmið Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi, fjalla um nauðsynlegan varnarviðbúnað, og skipulag og getu sem þurfi að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugsanlegar umbætur á laga- og stofnanaumgjörð varnarmála,“ segir í tilkynningunni.
„Þörfin á styrkingu í öryggis- og varnarmálum er knýjandi og því hef ég flýtt þessari stefnumótun, sem unnin verður í samstarfi við alla flokka á Alþingi,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu.
„Við þurfum að sjá til þess að hér sé til staðar nauðsynleg þekking, geta og innviðir til að tryggja öryggi Íslands í samstarfi við bandalagsríki okkar. Í dag erum við ekki aðeins að ýta úr vör stefnumótun heldur einnig aðgerðum.“