Sport

Hann er Corvette, ég er múrveggur

Mikil eftirvænting ríkir fyrir leik Los Angeles Lakers og Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta á jóladag en þá munu Shaquille O´Neal og Kobe Bryant mætast í fyrsta sinn síðan O´Neal var skipt til Miami í sumar. Þessir fyrrum liðsfélagar hafa rifist eins og hundur og köttur í fjölmiðlum undanfarna mánuði og O´Neal er með einföld skilaboð til Bryants fyrir leikinn: "Haltu þig fjarri." "Ef þú átt Corvette sem ekur á múrvegg þá veistu hvað gerist," sagði O´Neal í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina á mánudaginn. "Hann er Corvettan en ég er múrveggurinn þannig að þið vitið hvað gerist." O´Neal bað um að vera skipt til Miami Heat í sumar eftir að hann frétti að Phil Jackson myndi ekki þjálfa liðið á nýjan leik. "Ég frétti það á NBA-síðunni. Áður fyrr var ég yfirleitt fyrstur til að frétta hvað væri í gangi hjá félaginu og þarna skynjaði ég breytingar sem mér leist ekki á," sagði O´Neal sem sagði það bull að leikmenn þyrftu að vera vinir til að vinna meistaratitla. "Fullt af fólki heldur að það þurfi að vera mikill vinskapur til staðar til að árangur náist. Það er ekki rétt og það hefur sýnt sig. Virðingin verður hins vegar að vera til staðar," sagði O´Neal. "Vorum við einhvern tíma nánir? Ekki í raun. Bar ég virðingu fyrir honum sem leikmanni? Að sjálfsögðu gerði ég það," sagði O´Neal en leikur liðanna verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×