Sport

Stjörnuleikurinn með breyttu sniði

Hinn árlegi Stjörnuleikur körfuknattleikssambandsins verður haldinn laugardaginn 15. janúar 2005 í Valsheimilinu að Hlíðarenda. KKÍ hefur efnt til netkosningar á þeim leikmönnum sem taka eiga þátt í stjörnuleiknum sem að þessu sinni verður með breyttu sniði eins og fram kemur á heimasíðu sambandsins. Ákveðið hefur verið að bestu íslensku leikmenn Intersport-deildarinnar leiki gegn þeim bestu erlendu. Netkosningin hefst nú í annað sinn vegna breytinganna og þar sem kosningin er nú endurtekin munu þau atkvæði sem þegar hafa borist ekki vera talin. Kjósa á leikmenn í bæði byrjunarliðin, síðan munu íþróttafréttamenn velja næstu fimm í hvort lið og þjálfararnir, þeir Sigurður Ingimundarson og Einar Árni Jóhannesson, munu velja tvo leikmenn hvor til að fylla upp í tólf manna hóp hvors liðs. Ákveðið hefur verið að flokka leikmenn í tvo hópa, bakverði og framherja/miðherja. Ástæðan er sú að oft er erfitt að skilgreina hvort leikmaður sé miðherji eða framherji eins og íslensk lið leika, því hefur þeim flokkum verið steypt saman í einn. Netverjar kjósa því tvo leikmenn úr hópi bakvarða og þrjá “stóra” til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×