Sport

Heat vann Lakers

Shaquille O´Neal og félagar hans í Miami Heat höfðu betur gegn Los Angeles Lakers, 104-102, í kvöld í NBA-körfuboltanum. Leiknum hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda í fyrsta sinn sem Kobe Bryant og O´Neal leiða saman hesta sína eftir að leiðir skildu eftir síðasta tímabil. Tvímenningarnir hafa munnhöggvið duglega í hvorn annan í fjölmiðlum upp á síðkastið og því var viðbúið að andrúmsloftið yrði lævi blandið. Kobe Bryant byrjaði leikinn vel og skoraði 15 stig strax á fyrstu 6 mínútum leiksins. Lakers hafði frumkvæðið til að byrja með en gestirnir voru aldrei skammt undan. Staðan í hálfleik var 56-54, Lakers í vil. Jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik og var Bryant iðinn við kolann í stigaskoruninni. Dwyane Wade fékk kjörið tækifæri til að gera út um leikinn á lokasekúndum en skot hans geigaði og grípa varð til framlengingar. Þó að O´Neal hafi þurft að yfirgefa völlinn með 6 villur þá náði Heat að knýja fram nauman sigur. Bryant reyndi þriggja stiga skot á lokasekúndunni en það geigaði. Dwyane Wade var besti maður Heat-liðsins, skoraði 29 stig og gaf 10 stoðsendingar. Kobe Bryant var langbestur í liði heimamanna, skoraði 42 stig og gaf 6 stoðsendingar. Shaq var sáttur við sína menn. "Ég kom ekki hingað til að skora 50-60 stig og sýna mig. Ég vildi að liðið mitt ynni og það gekk eftir. Þegar ég fór út af með 6 villur sagði Eddie Jones við mig að hafa engar áhyggjur því að Flash (Eddie Jones) væri mættur," sagði O´Neal. Heat vann þar með sinn 11. leik í röð sem er met í sögu félagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×