Erlent

Ósmekklegt af Vinstri - grænum

Davíð Oddsson utanríkisráðherra segir það ósmekklegt af Vinstri - grænum að gera hörmungarnar við Indlandshaf að pólitísku máli. Davíð segir fjárframlag Íslands til hjálparstarfsins ekki skipta sköpum. Vinstri - grænir segja fimm milljónir króna, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita til hjálparstarfsins á hamfarasvæðunum, allt of litla fjárhæð miðað við að þetta séu einhverjar mestu hörmungar sögunnar. Þeir skora á stjórnvöld að veita minnst þrjú hundruð milljónir króna til hjálparstarfsins. Utanríkisráðherra segir fjárframlag Íslands til hjálparstarfsins ekki breyta öllu því málið sé svo ofboðslega stórt. Það eru margar aðgerðir sem við viljum taka þátt í en við munum ekki skipta sköpum í því efni að sögn Davíðs. Davíð finnst það afar ósmekklegt að menn hafi reynt að gera hörmungar af þessu tagi að pólitísku máli og gera menn, sem hafa ekkert með það að gera, tortryggilega. Hann segir að mönnum hafi bersýnilega orðið á, t.d. Ögmundur Jónasson sem fylgt hafi þessu eftir með árásum á NATO, og vonar að þetta hafi verið mistök sem Ögmundur eigi eftir að biðjast afsökunar á. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×