Innlent

Borgarfulltrúi verði borgarstjóri

Ágreiningur virðist vera að rísa innan R-listans í Reykjavík um hver skuli verða eftirmaður Þórólfs Árnasonar borgarstjóra sem sagði af sér í gær og lætur af störfum um næstu mánaðamót. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði í þáttunum Íslandi í dag og Kastljósi að telja mætti víst að nýr borgarstjóri kæmi úr röðum núverandi borgarfulltrúa, en að hennar kapítuli sem slíkur væri liðinn. Það væri farsælast með tilliti til þess hversu stutt væri eftir af kjörtímabilinu. Framsóknarfélag Reykjavíkur í Norðurkjördæmis ályktaði hins vegar á fundi sínum í gærkvöldi að leitað verði nýs borgarstjóra utan raða kjörinna borgarfulltrúa. Framsóknarmenn fallast því ekki á þá tillögu sem gerð hefur verið innan R- listans um að Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi taki við stöðu borgarstjóra. Forystumenn R-listans ætla að koma saman til fundar í dag til að ræða málið nánar og náist ekki samkomulag þar segja kunnugir að samstarf R-listans sé í hættu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×