Innlent

Verða að kyngja tilboðinu

Samningafundur hófst í kennaradeilunni klukkan tíu í morgun. Grunnskólakennarar lögðu fram tilboð í fyrradag sem felur í sér tuttugu og fimm prósenta launahækkun og segja að sveitarfélögin verði að kyngja því ef þau vilja fá kennara aftur í skólana. Þegar ljóst var í fyrradag að miðlunartillaga ríkissáttasemjara var kolfelld komu bæði sveitarfélögin og grunnskólakennarar með tillögur. Í tillögu sveitarfélaganna kemur að sögn fram vilji til að samræma vinnutíma og laun kennara við aðra háskólamenntaða starfsmenn. Þetta fengust kennarar ekki til að ræða, sögðu þetta eingöngu óljósar hugmyndir. Í tilboði kennaranna sjálfra felast talsvert meiri launahækkanir en í miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Miðlunartillagan fól í sér 130 þúsund króna eingreiðslu, 16,5% launahækkun og 26% kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Í tilboði kennara eru ákvæði um vinnufyrirkomulag sem eru svipuð og í miðlunartillögunni, en eingreiðslan 150 þúsund krónur, launahækkanir 25%, sem - ásamt fleiru - þýðir um 36% kostnaðaraukningu fyrir sveitarfélögin. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, telur að það sem kennarar „spili út“ þarna sé það sem þurfi til að leysa þetta verkfall. „Ég held að sveitarfélögin verði að kyngja þessu ef þau ætla að fá kennara inn í skólana,“ segir Eiríkur. Það verður hins vegar að teljast harla ólíklegt. Sveitarfélögin telja sig hafa teygt sig lengra en þau í raun gátu með miðlunartillögunni. Á samningafundinum í dag munu sveitarfélögin a.m.k. ræða tilboð kennara og reikna það út. Ekki horfir vænlega í deilunni og fá úrræði eftir. Kennarar hafa ekki útilokað gerðardóm, en það hafa sveitarfélögin gert. Lagasetning var ekki rædd í ríkisstjórn í gær en það er í sjálfu sér ekki útilokað að ríkissáttasemjari leggi fram nýja miðlunartillögu. Væntanlega sér hann þó lítinn tilgang í því, nema það sé fyrirséð að hún verði samþykkt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×