Erlent

Enginn mælanlegur munur

MYND/AP
Enginn mælanlegur munur er á fylgi George Bush og Johns Kerrys samkvæmt nýjustu könnunum. Frambjóðendurnir endasendast nú landshluta á milli í von um að heilla óákveðna kjósendur. Bush hefur tveggja prósentu forskot samkvæmt nýjustu könnum Reuters og Zogby sem birt var í morgun, en það er innan skekkjumarka. Óákveðnum fækkar um eitt prósentustig, sem er einnig innan skekkjumarka. Mesti munurinn er í könnum Washington Post en samkvæmt henni er Bush með 51 prósents fylgi en Kerry 45 prósent. Helstu breytingar sem séfræðingar, sem rýna í kannanir, segjast hafa orðið varir við á undanförnum dögum eru þær að traustið sem almenningur ber til Bush til að verja Bandaríkin hefur dvínað nokkuð og að óánægja þeirra með ástandið í Írak og heima fyrir eykst. Bæði Kerry og Bush eru í dag á ferð í lykilríkjunum þar sem hlutfall óákveðinna kjósenda er hátt. Þó að þeir séu að líkindum aðeins á milli sex og sjö prósent kjósenda á landsvísu, og aðeins þeir sem eru í lykilríkjunum skipti máli, koma þeir að líkindum til með að ráða miklu um úrslitin, auk þeirra sem nú kjósa í fyrsta sinn og eru ekki teknir með í skoðanakönnunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×