Menning

Bæklingur um mikilvægi hreyfingar

Hjartavernd gaf nýverið út bæklinginn "Hreyfðu þig fyrir hjartað". Í honum er fjallað um mikilvægi daglegrar hreyfingar fyrir hjartað og hvernig hún stuðlar að jákvæðri blóðfitu og heldur líkamsþyngd í lágmarki auk þess sem hún eykur þol og almenna vellíðan. Þá eru gefin góð ráð varðandi reglulega þjálfun eins og það að halda svokallaða "hreyfidagbók". Ástrós Sverrisdóttir, fræðslufulltrúi Hjartaverndar, segir tilganginn með útgáfu bæklingsins vera fyrst og fremst þann að koma þeirri fræðslu til almennings hve dagleg hreyfing sé mikilvæg fyrir heilbrigt hjarta. "Eins og kemur fram í bæklingnum er hreyfing í hálftíma á dag það sem þarf. Mikilvægt er að byrja hægt og rólega og á öftustu síðu eru gefin góð ráð eins og varðandi hreyfidagbók þar sem fólk skráir niður hvað það hreyfir sig mikið á hverjum degi. Þannig gæti dagbókin hjálpað fólki að láta hreyfingu verða part af lífstílnum," segir hún. Bæklingurinn er númer sex í röðinni af þeim sem samtökin hafa gefið út síðan árið 2000. Upplýsingarnar í þeim eru byggðar á niðurstöðum og rannsóknum samtakanna og því mjög ábyggilegar. "Við höfum tekið fyrir hvern og einn áhættuþátt og eru bæklingarnir alls orðnir sex talsins. Mikil eftirspurn er eftir þeim því allir hafa þeir verið endurprentaðir. Bæklingunum er dreift mjög markvisst til heilsugæslustöðva, heilbrigðisstarfsmanna, bókasafna og fjölmiðla. Einnig fær fólk sem kemur í áhættumat til Hjartaverndar afhentan viðeigandi bækling," segir Ástrós.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.