Menning

Sukiyaki í sumarblíðu

Hjónin Dúna og Tómas Boonchang reka veitingastaðina Ban Thai á Hverfisgötu og NaNa Thai í Skeifunni. Veitingastaðurinn Ban Thai (sem þýðir Taíhúsið) hefur verið starfræktur í þrettán ár við góðan orðstír. Þar er lögð mikil áhersla á að allt sem á boðstólum er sé ekta taílenskt, til dæmis er ekki boðið upp á að borða með prjónum og nota hníf svo dæmi séu tekin heldur lögð áhersla á hreinræktaða taílenska matargerð og siði. Að auki er boðið upp á viský, sherrý og brandý frá Thailandi að ógleymdum Taívínunum sem hafa unnið til fjölda verðlauna um allan heim. Á Nana Thai er áherslan á fjölbreyttni svo eitthvað nýtt er matseðlinum á hverjum degi. Báðir eiga staðirnir það þó sameiginlegt að leggja áherslu á ferskleika og hollustu:: "Við hjónin eldum allt frá grunni og hér er enginn örbylgjuofn. Allt hráefni er ferskt, og það krydd og grænmeti sem við fáum ekki á Íslandi kemur með flugi beint frá Thailandi tvisvar í viku. Við notum það íslenska grænmeti sem fæst á hverjum tíma og að sjálfsögðu íslenskt kjöt og fisk. Við notum ekki þriðja kryddið og aldrei frosinn matvæli," segir Tómas Boonchang. Þau hjónin elda sitt á hvorum staðnum, hún á Ban Thai og hann á NaNa Thai en þar lokar fyrr og þá fer hann á Ban Thai að hjálpa til. Aðspurður um ráð til Íslendinga sem hyggjast njóta taílenskrar matargerðar segir Tómas: Takið mark á þjóninum þegar hann segir að matur sé sterkur og ekki taka mark á vinum ykkar þegar þeir segja að matur sé ekki sterkur." Annars hefur honum komið á óvart hversu margir Íslendingar eru sólgnir í sterkan mat. "taílenskur matur er ekki dýr en hann er auðvitað mis ódýr. Hér hjá okkur leggjum við mikið upp úr ferskleika og gæðum og það þýðir að kannski er maturinn hjá okkur aðeins dýrari en á öðrum taílenskum veitingastöðum. Svo þýðir heldur ekkert að koma inn á Ban Thai og NaNa Thai og ætla að fá matinn eftir fimm mínútur. Við eldum hvern einasta rétt frá grunni og það tekur alltaf lengri tíma en fimm mínútur. " Á NaNa Thai er boðið upp á taílenskt Sukiyaki sem ekki hefur staðið Íslendingum til boða áður. Sukiyaiki er matreiðsluaðferð sem felst í því að einskonar súpa er hituð að suðumarki í sérstökum potti sem heldur súpunni brennheitri. Svo eru matarbitar settir í litla vírkörfu með skafti og hún sett ofan í pottinn og maturinn soðinn í smástund. Misjafnt er eftir matartegundum hvað maturinn á að vera lengi í pottinum en ekkert þó lengur en fimm mínútur. Þá er karfan tekin upp úr pottinum og hvolft úr henni á disk og þartilgerð sósa sett yfir. Sukiyaki er hið mesta lostæti og að auki mjög skemmtilegur matur en tilfæringarnar minna helst á svissneskt fondue. Súpan er ekki fitandi þar sem nánast engin olía er notuð í hana og því er sukiyaki ekki bara gott og skemmtilegt heldur líka meinhollt. Tómas og Dúna una hag sínum vel á Íslandi. "Mér líður vel á Íslandi annars og því betur eftir því sem ég er hér lengur. Ég hef oft verið á leiðinni heim en alltat eitthvað komið upp á og kannski hef ég bara verið að finna mér afsakanir til að vera lengur. Ég er stoltur af því að vera Íslendingur og segi frá því hvar sem ég fer. Mig langar samt aftur heim til Thailands eftir nokkur ár og að opna veitingastað þar, kannski íslenskan?"





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.