Innlent

Lögreglubílar skemmdust í eftirför

Kvikmyndatökumenn sem voru að störfum á Klapparstíg klukkan hálfsjö í morgun áttu fótum fjör að launa þegar ölvaður bílþjófur gerði sig líklegan til að aka á þá, á þeirra eigin bíl, þegar þeir ætluðu að stöðva hann. Tveir lögreglubílar skemmdust í eftirför sem hófst í kjölfarið. Bíll kvikmyndatökumannanna stóð opinn og með lyklunum í, enda voru þeir nánast að vinna við hliðina á honum, þegar þjófurinn læddist upp í hann, setti í gang og ók af stað. Þeir hringdu þegar í lögregluna og sáu lögreglumenn til bílsins skömmu síðar og ætluð að stöðva hann. Ökumaðurinn ók þá á lögreglubílinn og hélt áfram eftir einstefnugötum, á móti rauðum ljósum og nokkrum sinnum utan í tvö lögreglubíla sem þátt tóku í eftirförinni. Lögreglunni tókst loks að króa hann af á Miklubraut. Að sögn lögreglu vildi svo vel til að morgunumferðin var ekki byrjuð því stórhætta stafaði af akstri mannsins. Ökumaðurinn, sem er tvítugur, var þegar handtekinn og gistir nú fangageymslur. Lögreglubílarnir skemmdust báðir talsvert líkt og bíll kvikmyndatökumannanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×