Viðskipti innlent
Afkoma lífeyrissjóðanna batnar
Afkoma lífeyrissjóða breyttist mjög til hins betra í fyrra eftir þrjú erfið ár þar á undan og nálgaðist raunávöxtun þeirra metið frá árinu 1999. Raunávöxtun sjóðanna í fyrra var að meðaltali 11,3 prósent en var neikvæð árið þar áður um þrjú prósent. Tvö árin þar á undan var ávöxtunin heldur minna neikvæð og því er raunávöxtun síðustu fimm ára ekki nema 3,5 prósent en 5,4 prósent sé litið til tíu ára. Fimmtíu lífeyrissjóðir eru starfandi í landinu en þar af eru ellefu hættir að taka við iðgjöldum. Sjóðir í fullri starfsemi eru því ekki nema 39 enda hafa lífeyrissjóðir verið að sameinast undanfarin ár. Í yfirliti Fjármálaeftirlitsins um stöðu sjóðanna segir að tryggingafræðileg staða sjóðanna hafi batnað verulega í fyrra og hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris var 824 milljarðar króna, samanborið við 679 milljarða um áramótin á undan, sem er aukning um 145 milljarða á einu ári. Um 172 þúsund manns voru í lífeyrissjóðum í fyrra og rúm 62 þúsund í samtryggingadeildum.