Bygging með ævintýraljóma
Uppáhaldshús Braga Þórs Jósefssonar ljósmyndara er Heilsuverndarstöðin í Reykjavík. "Mér finnst alltaf gaman að keyra framhjá húsinu og spá í línur og lögun þess. Mér finnst hönnunin flott og gamli steinninn utan á húsinu mjög fallegur. Ég man líka þegar ég var barn og unglingur fannst mér húsið alltaf mjög ævintýralegt með spíruna þarna uppi og brýrnar tengdar frá götunni og inn í húsið. Þetta allt fannst mér alltaf varpa miklum ævintýraljóma á bygginguna," segir Bragi Þór. Arkitekt hússins er Einar Sveinsson. "Ég er mjög hrifinn af hönnuninni og er gamli skólinn minn, Langholtskólinn, einmitt í sama stíl og Heilsuverndarstöðin en Einar Sveinsson er einmitt meðal þeirra arkitekta sem hönnuðu bæði húsin," segir hann. Þótt Bragi dáist mjög að húsinu að utanverðu er hann ekki eins hrifinn af hvernig það lítur út að innan. "Ég hef aðeins komið inn í húsið en ég hef ekkert farið mikið um það. Mér finnst það ekki eins flott að innan því gamla stílnum hefur greinilega ekki verið haldið eins að innan og hefur verið gert að utan. Það hefur greinilega ekki verið hugsað eins mikið um það. Meira svona stofnanalegur blær þar inni, ekkert spennandi. En að vísu hef ég bara farið rétt inn í aðalinnganginn þannig að ég get ekki alveg dæmt út frá því. Bragi Þór starfar sem ljósmyndari fyrir tímarit Fróða en myndar einna helst fyrir tímaritið Hús og híbýli. " Vinnu minnar vegna spái ég því töluvert í hönnun húsa. Ég mynda líka mikið fyrir arkitekta og við myndatökur þarf ég þá bæði að hafa í huga sjónarhorn og lýsingu," segir hann.