Viðskipti innlent

Gengishagnaður strax við kaup

"Þetta er ósköp einfalt. Bréf KB banka hafa verið að seljast á genginu 420 til 450 krónur á hlut. Gengið í útboðinu er 360 krónur á hlut," segir Karl Finnbogason hjá Verðbréfastofunni um hlutafjárútboð KB banka. "Við ráðleggjum okkar viðskiptavinum að taka þátt í þessu útboði, það er engin spurning." Karl segir að kaupendur séu þegar við kaup með gengishagnað af nýjum bréfum. KB banki hyggst afla 40 milljarða í hlutafjárútboði til kaupa á danska bankanum FIH. Þeir sem áttu hlut í bankanum þann 5. júlí hafa rétt til kaupa í hlutfalli við eign sína. Hluthafar bankans hafa fengið sent bréf þar sem þeim er úthlutað lykilorði. Borið hefur á þeim misskilningi að fólk hafi reynt að skrá sig nú þegar, en ekki verður opnað fyrir skráningu fyrr en á fimmtudag. Bankinn mun birta sex mánaða uppgjör þann dag. Fjárfestar hafa svo tíma til 6. ágúst til að taka ákvörðun, en þurfa ekki að greiða hlut sinn fyrr en 20. ágúst. Karl segir þá hjá Verðbréfastofunni hafa svarað fyrirspurnum viðskiptavina um útboðið. "Við erum einnig með hóp fólks í eignastýringu hjá okkur. Sá hópur þarf ekki að hafa áhyggjur af útboðinu. Við sjáum um kaupin fyrir það."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×