Innlent

Beitukóngurinn þykir sælkeramatur

Veiðar og vinnsla á kuðungum úr Breiðafirði skapa nú þrjátíu manns atvinnu í Stykkishólmi og Grundarfirði. Beitukóngurinn þykir sælkeramatur bæði í Asíu og Evrópu. Það voru Hólmarar sem fyrstir hófu fyrir alvöru veiðar á kuðungi fyrir átta árum. Tunnurnar sem kastast fyrir borð eru gildrur sem verið er að leggja fyrir beitukóng en svo nefnist kuðungstegundin sem menn sækjast eftir. Veiðarnar lögðust af um tíma en hafa nú verið teknar upp að nýju og frá því í vor hafa þrír bátar í Stykkishólmi og einn úr Grundarfirði veitt beitukóng. Útgerð Arnars í Stykkishólmi er stærst en hún er með þrjá báta í kuðungsveiðum og tólf manns í vinnslu í landi. Í Grundarfirði er einn bátur, Garpur, gerður út á kuðung og sex manns vinna að verkun hans í landi. Það veldur nokkrum áhyggjum að dregið hefur úr veiðinni. Ásgeir Valdimarsson útgerðarmaður segir að í ár hafi aðeins náðst 2,5-3 kíló í gildru á móti 4-4,5 kílói í fyrra. það líti því út fyrir að svæðin þoli ekki mikið veiðiálag. Veitingastaðir í Frakklandi og Belgíu kaupa beitukónginn í heilu lagi og bjóða gestum að draga sæsnigilinn með töngum út úr kuðungnum. Kaupendur í Japan og Kóreu vilja hins vegar bara vöðvann og það soðinn. Ásgeir segir þetta herramannsmat þótt beitukóngurinn sé stífur undir tönn. Hann selst líka vel, sérstaklega í Kóreu, en verðið mætti vera aðeins hærra að sögn Ásgeirs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×