Menning

Þæfð ull

"Þæfing á ull er aldagömul vinnuaðferð sem notuð hefur verið til að útbúa efni í flíkur, tjöld og skó til að verjast kuldanum," segir Ásdís Birgisdóttir, ráðskona Heimilisiðnaðarfélagsins sem rekur Heimilisiðnaðarskólann þar sem haldin eru námskeið í þæfingu á ull. "Við byrjuðum með þessi námskeið fyrir tveimur árum síðan og þau hafa verið geysilega vinsæl," segir Ásdís en á námskeiðunum eru ýmist íslenskir eða erlendir kennarar, sem býður upp á meiri fjölbreytni. "Aðferðin er mjög einföld en möguleikarnir eru endalausir. Ullin er tekin óunnin og bleytt og sett örlítil sápa og svo nudduð saman. Eins og allir þekkja þéttist ull þegar hún fer í vatn og þessi eiginleiki ullarinnar býður upp á svo margt, því það þarf ekkert að prjóna úr henni eða slíkt, " segir Ásdís en á námskeiðunum er aðferðin kennd og útbúnir nokkrir hlutir. "Á námskeiðunum hjá okkur er hægt að gera allt mögulegt, alveg frá litlu jólaepli upp í að búa til lengjur af efnum sem eru blandaðar silki og bómullarefni, og þá er notuð ofsalega fín ull. Þessi efni eru til dæmis notuð í gluggatjöld, vegghengi, púða, fatnað, sjöl eða fleira, en það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hérna hjá okkur," segir Ásdís en næsta námskeið hefst á morgun í svokallaðri þurrþæfingu og þá eru gerðir litlir hlutir með nál, sem verða skrautmunir, myndverk, brúður, skartgripir og fleira. "Svo verðum við með jólanámskeið í lok nóvember þar sem við vinnum á tveimur kvöldum að verkefnum tengdum jólunum," segir Ásdís.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×