Menning

Nemendur í Hringsjá

Hringsjá er nafn á menntastofnun sem hljótt er um. Þó er hún ekki á hjara veraldar heldur í stórborginni sjálfri, nánar tiltekið í Hátúni 10d. Hringsjá er rekin sem sjálfstæð stofnun en undir merkjum Öryrkjabandalagsins og hlutverk hennar er að endurhæfa þá sem af einhverjum ástæðum hafa heltst úr lestinni af völdum slysa, sjúkdóma eða einhverrar fötlunar. Þar stunda nemendur yfir 18 ára aldri reglubundið þriggja anna nám og nemendafjöldi er um 45 en fer upp í 100 yfir árið þegar nemendur á sérstökum tölvunámskeiðum eru taldir með. "Þetta er stökkpallur hjá mörgum út í frekara nám eða starf og stór þáttur í að byggja upp sjálfstraust," segir Guðrún Hannesdóttir skólastjóri. Upphafið að starfseminni rekur hún til ársins 1983 þegar farið var af stað með tölvunámskeið enda tölvurnar þá að ryðja sér til rúms. "Þegar skólinn var settur á stofn árið 1987 höfðu margar námsgreinar bæst við," segir hún brosandi og bætir við að tölvukennslan sé þó enn vinsælasta námsefnið á staðnum og auk þess séu tölvurnar notaðar sem sjálfsögð verkfæri í öðrum greinum. Húsakynni Hringsjár eru hringlaga og því mæta manni mjúkar línur þegar inn er komið og mýktin endurspeglast í viðmóti fólksins. Greinilegt er að virðing og hlýja eru aðalsmerki þess. Nokkrir nemendur sitja við hringlaga borð á ganginum og læra undir félagsfræðitíma. Stærðfræði, íslenska, enska og tjáning eru líka á stundatöflunni. Einn þeirra segir ótrúlegt hversu langt þeim hafi miðað á stuttum tíma og hinir taka undir það. "Þegar við komum hingað fyrir ári vorum við hokin og hrædd. Nú höfum við rétt úr okkur og komist að því að við getum meira en við héldum. Það eru forréttindi að fá að vera hér. Ég vildi að námstímabilið væri þrjú ár en ekki þrjár annir." Áhöfnin á Hringsjá er 10-13 manna hópur. Þar er náms- og starfsráðgjafi og sálfræðingur auk kennara. Nemendurnir bera mikið lof á þetta fólk. "Það ætti að fá orður. Án gríns," segir einn. "Það er eins og englar sem hafa dottið af himnum ofan bara til að kenna okkur," segir annar og það verða lokaorðin frá Hringsjánni að þessu sinni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.