Viðskipti innlent

Bréf lækkuðu um 9 prósent

Hlutabréf í DeCode, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, féllu hratt í viðskiptum fyrir opnun markaða í gær. Þetta gerðist í kjölfar yfirlýsingar um að endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse Coopers væri hætt að starfa fyrir DeCode. Að sögn Eiríks Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar, var ekki um neinn ágreining á milli aðilanna tveggja að ræða. Hann segir að engar deilur séu um reikningsskil eða bókhald. "Enda hefði þurft að tilkynna það til bandaríska verðbréfaeftirlitsins," segir Eiríkur. Stutt er í aðalfund DeCode og má þá búast við því að nýir endurskoðendur félagsins verði kynntir "Það má líka segja að þetta sé hluti af því ferli að skipta um endurskoðendur," segir hann. Bréf í DeCode lækkuðu í viðskiptum á Nasdaq í gær og stóðu í 5,75 dölum á hlut síðdegis - tæplega níu prósenta lækkun frá fimmtudeginum. Fjármálafyrirtækið J.P. Morgan gaf út yfirlýsingu vegna brotthvarfs Pricewaterhouse Coopers og telur ekki að efnislegur ágreiningur hafi ráðið ákvörðuninni en gefur í skyn að samskipti milli endurskoðenda og fjármáladeildar DeCode hafi valdið samstarfsslitunum. J.P. Morgan telur ekki að þessi tíðindi hafi áhrif á verðmat félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×